U21 karla tók þátt í lokakeppni EM 2021

Árið hófst á því að þjálfaraskipti urðu hjá U21 karla. Arnar Þór Viðarsson hætti með liðið og tók við stjórn A landsliðs karla. Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 karla, tók við af honum sem nýr þjálfari U21 karla.

Fyrstu leikir liðsins undir stjórn Davíðs Snorra voru leikirnir í lokakeppni EM 2021. Ísland var þar í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi, en allir leikir liðsins fóru fram á Gyirmóti Stadion í Györ í Ungverjalandi. Þetta var í annað sinn frá upphafi sem U21 landslið karla lék í úrslitakeppni EM.

Rússland var fyrsti andstæðingur liðsins og voru þeir þremur mörkum yfir í hálfleik eftir yfirburði í fyrri hálfleik. Leikurinn var nokkuð jafnari í síðari hálfleik, Rússar komust í 4-0 áður en Sveinn Aron Guðjohnsen minnkaði muninn. Stórt og svekkjandi tap í fyrsta leik. Ísland mætti Danmörku næst, en Danir byrjuðu leikinn af krafti og voru komnir í 2-0 eftir 18 mínútna leik. Ísland fékk tækifæri á 37. mínútu til að minnka muninn af vítapunktinum, en markvörður Dana varði spyrnuna. Síðari hálfleikur var tíðindalítill og annað tap Íslands því staðreynd. Fyrir síðasta leik liðsins í riðlinum voru fjórir leikmenn þess kallaðir inn í hóp A karla sem lék gegn Liechtenstein sama dag og leikur U21 karla gegn Frakklandi fór fram. Þeir Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Sveinn Aron Guðjohnsen fóru því til móts við A karla. Engir leikmenn voru kallaðir inn í hóp U21 karla í staðinn. Það var því ljóst að róðurinn yrði þungur gegn Frökkum. Líkt og í hinum tveimur leikjunum var það fyrri hálfleikur sem varð íslenska liðinu að falli. Frakkland skoraði tvö mörk þar og vann á endanum 2-0 sigur. Því var ljóst að Ísland myndi enda í neðsta sæti riðilsins og kæmist því ekki áfram í átta liða úrslit keppninnar.

Mynd - Mummi Lú

Undankeppni EM 2023 hjá U21 karla

Dregið var í undankeppni EM 2023 í janúar, en þar dróst Ísland í riðil með Portúgal, Grikklandi, Kýpur og Hvíta Rússlandi. Fyrstu leikir undankeppninnar voru í september. Fyrst fór Ísland til Hvíta-Rússlands og mætti þar heimamönnum. Hákon Arnar Haraldsson kom Íslandi yfir um miðjan fyrri hálfleik og bætti svo við öðru marki sínu í byrjun síðari hálfleiks. Hvít-Rússar minnkuðu muninn þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum, en komust ekki lengra en það. Góður sigur í fyrsta leiknum í keppninni. Liðið mætti svo Grikklandi í næsta leik á Würth-vellinum í Árbæ. Kolbeinn Þórðarson kom liðinu yfir í fyrri hálfleik, en Grikkir jöfnuðu undir lok hans. Fleiri mörk voru ekki skoruð og jafntefli því niðurstaðan.

Í október lék liðið aðeins einn leik, gegn Portúgal á Víkingsvelli. Leikurinn var mjög jafn og áttu markverðir beggja liða frábæran leik. Það voru Portúgalir sem skoruðu eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks. Svekkjandi tap staðreynd.

Tveir leikir fóru fram í nóvember, báðir ytra. Ísland vann fínan 3-0 sigur gegn Liechtenstein með mörkum frá Kristian Nökkva Hlynssyni, Ágúst Eðvaldi Hlynssyni og Brynjólfi Andersen Willumssyni. Strákarnir fóru síðan til Grikklands og töpuðu þar með minnsta mun, 0-1, í mjög jöfnum og spennandi leik. Ísland endaði því árið í 4. sæti riðilsins með sjö stig eftir fimm leiki, átta stigum frá Portúgal sem er á toppinum.

U19 kvenna

Liðið tók þátt í undankeppni EM 2022 og var þar í riðli með Frakklandi, Svíþjóð og Serbíu. Stelpurnar töpuðu 1-2 gegn Svíþjóð og 0-2 gegn Frakklandi, en unnu 2-0 sigur gegn Serbíu í síðasta leiknum. Með sigrinum tryggði liðið sér áframhaldandi veru í A deild undankeppninnar. Næsta umferð hennar fer fram í vor og er Ísland þar í riðli með Englandi, Wales og Belgíu.

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Margrét Magnúsdóttir ráðin þjálfari U19 kvenna

Margrét Magnúsdóttir var í upphafi 2021 ráðin sem þjálfari U19 landsliðs kvenna. Margrét verður jafnframt aðstoðarþjálfari U17 landsliðs kvenna.

Margrét hefur lokið UEFA A (KSÍ A) og UEFA Youth Elite (KSÍ Afreksþjálfun unglinga) knattspyrnuþjálfaragráðum, er með stúdentspróf í íþróttafræði frá Fjölbraut í Breiðholti og BS gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur m.a. starfað sem afreksþjálfari og yfirþjálfari yngri flokka kvenna hjá Val og sem yfirþjálfari yngri flokka kvenna hjá Fylki, auk þess að að gegna starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna hjá Fylki árin 2019 og 2020.

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

U19 karla

U19 landslið karla lék þrjá vináttuleiki á árinu í undirbúningi sínum fyrir undankeppni EM 2022. Í júní fór liðið til Færeyja í tengslum við vináttuleik A landsliðs karla þar í landi og lék þar tvo leiki. Fyrst léku þeir við U21 ára landslið Færeyja og endaði sá leikur með 2-2 jafntefli. Seinni leikurinn var svo gegn U19 ára landsliði Færeyinga, en sá leikur fór einnig 2-2. Ísland mætti svo Sviss í byrjun september ytra og tapaði þeim leik 0-3.

Í undankeppninni voru strákarnir með Ítalíu, Litháen og Slóveníu í riðli. Þeir byrjuðu riðilinn frábærlega og unnu Slóveníu 3-1. Næstu andstæðingar liðsins voru Ítalir og endaði sá leikur með öruggum 3-0 sigri Ítalíu. Góður 2-1 sigur vannst gegn Litháen í síðustu umferðinni og sæti í milliriðlum því tryggt.

Milliriðlarnir fara fram núna í vor og er Ísland þar í riðli með Rúmeníu, Georgíu og Króatíu.

U17 kvenna

Ísland lék í undankeppni EM 2022 í lok september, en stelpurnar voru í riðli með Spáni, Serbíu og Norður-Írlandi. Leikið var í Serbíu. Ísland hóf riðilinn á frábærum 4-1 sigri gegn Serbum áður en það tapaði 0-4 gegn Spáni. Flottur 3-1 sigur í lokaleiknum gegn Norður-Írlandi tryggði liðinu annað sæti riðilsins.

Næsta umferð undankeppninnar verður leikin í lok mars og er Ísland í riðli með Finnlandi, Írlandi og Slóvakíu. Leikið verður á Írlandi.

U17 karla

Ísland lék tvo vináttuleiki gegn Finnlandi í lok ágúst, en leikið var ytra. Fyrri leikurinn endaði með 2-1 sigri Íslands en þann seinni unnu Finnar 3-1.

Liðið var í riðli með Eistlandi, Georgíu og Ungverjalandi í fyrstu umferð undankeppni EM 2022. Strákarnir gerðu jafntefli gegn Georgíu og Ungverjalandi, en töpuðu gegn Eistlandi. Þetta þýddi að liðið endaði í neðsta sæti síns riðils og komust þeir því ekki áfram í næstu umferð undankeppninnar.

Magnús Örn ráðinn þjálfari U17 kvenna

Magnús Örn Helgason var ráðinn sem þjálfari U17 landsliðs kvenna og hóf hann störf 10. september.

Magnús Örn er 32 ára gamall Seltirningur sem lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun. Magnús er með UEFA-A og UEFA-Youth þjálfaragráður, B.Sc í íþróttafræði og hefur hann þjálfað flesta aldurshópa hjá Gróttu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Síðustu ár hefur Magnús komið að starfi yngri landsliðanna, m.a. greiningarvinnu og annarri aðstoð í verkefnum U17 kvenna, auk æfinga, úrtökumóta og kennslu á þjálfaranámskeiðum. Magnús Örn hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Gróttu síðustu þrjú ár og lét hann af því starfi að loknu keppnistímabilinu 2021.

U16 kvenna

Ísland lék á Norðurlandamótinu sem haldið var í júlí þar sem liðið lék þrjá leiki. Íslenska liðið gerði fyrst 1-1 jafntefli gegn Svíþjóð, vann svo 1-0 sigur á Danmörku 2 og tapaði 0-3 fyrir Danmörku 1.

U15 karla

Ísland mætti Finnlandi í tveimur vináttuleikjum í lok september, en báðir leikirnir fóru fram í Finnlandi. Strákarnir töpuðu þeim báðum, þeim fyrri 3-4 og þeim seinni 2-6.

Augnablik ...