Íslenska landsliðið í eFótbolta tók þátt í þremur keppnum á árinu
Íslenska landsliðið í eFótbolta hefur tekið þátt í þremur mótum á árinu og stóð það sig með ágætum.
Ísland hóf árið á því að taka þátt í undankeppni eEURO 2021 þar sem leikið er í leiknum PES, en þar var liðið í riðli með Ítalíu, Portúgal, Moldóvú, Englandi og Norður Írlandi. Riðillinn var leikinn á tveimur dögum og töpuðu strákarnir öllum leikjum sínum, nema einum þar sem þeir gerðu 1-1 jafntefli við Norður Íra.
Næsta verkefni liðsins var undankeppni FIFA eNations Cup. Þar var Ísland í riðli með Englandi, Póllandi, Ísrael, Belgíu, Króatíu og Eistlandi. Liðið endaði þar í neðsta sæti riðilsins með tvö stig, en þau komu gegn Króatíu og Eistlandi.
Að lokum hefur Ísland tekið þátt í undankeppni FIFAe Nations Series. Í fyrri riðli sínum mættu þeir Eistlandi, Slóvakíu, Búlgaríu, Skotlandi, Norður Írlandi og Spáni. Liðið endaði þar í sjötta sæti. Í næstu umferð undankeppninnar endaði liðið einnig í sjötta sæti síns riðils, en þar mætti það Norður Írlandi, Eistlandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Finnlandi og Belgíu.
Hér að neðan má sjá tvö mörk úr þeirri keppni.