Ísland lék í undankeppni HM 2022

A landslið karla hóf leik í undankeppni HM 2022 í mars með þremur leikjum, en öll undankeppnin var leikin á einu ári. Leikirnir fóru allir fram ytra, en sá fyrsti var gegn Þýskalandi. Þjóðverjar hófu leikinn af krafti og voru komnir í 2-0 eftir aðeins sjö mínútur. Þeir bættu svo við þriðja markinu á 56. mínútu og lokatölur 0-3. Næst mætti Ísland Armeníu og tapaðist sá leikur einnig, 0-2. Íslenska liðið ennþá án sigurs, en það breyttist í næsta leik gegn Liechtenstein. Öruggur 4-1 sigur Íslands var niðurstaðan. Birkir Már Sævarsson og Birkir Bjarnason skoruðu sitt markið hvor í fyrri hálfleik. Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson bættu við tveimur mörkum í viðbót í síðari hálfleik ásamt því að heimamönnum tókst að koma boltanum í netið einu sinni.

Þrír vináttuleikir voru leiknir í lok maí og byrjun júní. Fyrstu andstæðingarnir voru Mexíkó í lok maí, en leikið var á AT&T vellinum í Dallas í Bandaríkjunum. Leikurinn var fyrir utan landsleikjaglugga FIFA svo nokkrar breytingar urðu á hópnum á milli hans og leikjanna gegn Færeyjum og Póllandi. Ísland tók forystuna gegn Mexíkó á 14. mínútu þegar leikmaður Mexíkó setti boltann í sitt eigið net. Íslenska liðið spilaði vel í leiknum, tókst þó ekki að bæta við mörkum og Mexíkó skoraði tvö mörk í seinni hluta síðari hálfleiks. Svekkjandi tap staðreynd. Leikurinn gegn Færeyjum í Þórshöfn var nokkuð jafn, en það var Mikael Neville Anderson sem skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik. Síðasti leikur gluggans var gegn Póllandi sem var á fullu í undirbúningi sínum fyrir lokakeppni EM 2021. Ísland átti góðan leik og náði í 2-2 jafntefli gegn firnasterku liði Póllands. Albert Guðmundsson skoraði í fyrri hálfleik og Brynjar Ingi Bjarnason í upphafi síðari hálfleiks.

Íslenska liðið lék aftur þrjá leiki í landsleikjaglugganum í september, en þar mætti það Rúmeníu, Norður Makedóníu og Þýskalandi. Allir leikirnir fóru fram á Laugardalsvelli á sjö dögum. Fyrsti leikurinn endaði með 0-2 tapi gegn Rúmeníu og því ljóst að róðurinn í riðlinum var orðinn ansi erfiður. Næsti andstæðingur liðsins var Norður Makedónía og leit lengi vel út fyrir að annað tap yrði niðurstaðan. Gestirnir skoruðu strax eftir tólf mínútna leik og bættu svo öðru marki við snemma í síðari hálfleik. Strákarnir gáfust hins vegar aldrei upp og tókst Brynjari Inga Bjarnasyni að minnka muninn þegar um tólf mínútur voru eftir af leiknum. Liðið hélt áfram að leggja allt í sölurnar í sókninni og það skilaði sér þegar Andri Lucas Guðjohnsen jafnaði metinn sex mínútum síðar. Þetta voru ekki úrslitin sem Ísland vonaðist eftir, en engu að síður frábær endurkoma. Síðasti leikurinn í september var svo gegn Þjóðverjum, en þeir stjórnuðu ferð leiksins allan tímann. Þýskaland skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og tvö í þeim síðari og 0-4 tap niðurstaða leiksins.

Tveir heimaleikir voru í október þegar Ísland mætti Armeníu og Liechtenstein. Armenar voru fyrri andstæðingurinn og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli, en Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði mark Íslands eftir að Armenía komst yfir í fyrri hálfleik. Úrslitin úr leiknum gegn Liechtenstein voru öllu jákvæðari, strákarnir voru mun sterkari aðilinn og hefðu getað skorað fleiri mörk. Stefán Teitur Þórðarson kom liðinu yfir um miðjan fyrri hálfleik. Albert Guðmundsson skoraði næstu tvö mörk leiksins, annað í lok fyrri hálfleiks og hitt þegar um tíu mínútur voru eftir af síðari hálfleik. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði svo síðasta mark leiksins, en það kom eftir sendingu frá bróður hans Sveini Aroni Guðjohnsen.

Í nóvember lék liðið síðustu tvo leiki sína í riðlakeppninni. Báðir fóru þeir fram ytra, sá fyrri í Rúmeníu og sá síðari í Norður Makedóníu. Fyrri leikurinn endaði með markalausu jafntefli en sá síðari með 1-3 tapi þar sem Jón Dagur Þorsteinsson skoraði mark Íslands.

Ljóst er að uppskeran úr riðlinum var ekki eins og vonast var eftir, en miklar breytingar urðu á liðinu á árinu af ýmsum ástæðum. Mikið af ungum og efnilegum leikmönnum tóku sín fyrstu spor með liðinu og er ljóst að framtíðin er björt.

Birkir og Birkir Már heiðraðir fyrir að leika 100 A-landsleiki

Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson léku báðir sinn 100. A-landsleik þegar Ísland mætti Norður-Makedóníu á Laugardalsvelli í byrjun september. Af því tilefni voru þeir heiðraðir sérstaklega áður en þjóðsöngvarnir voru leiknir fyrir leikinn við Þýskaland nokkrum dögum síðar.

Birkir Bjarnason er fæddur árið 1988 er því 33 ára á þessu ári. Hans fyrsti A-landsleikur var vináttulandsleikur gegn Andorra árið 2010 og hefur hann skorað 14 mörk í leikjunum hundrað. Til viðbótar hefur Birkir leikið 46 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Birkir Már Sævarsson var á 23. aldursári þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2007, gegn Liechtenstein í undankeppni EM. Birkir, sem er fæddur 1984, verður 37 ára síðar á þessu ári og hefur skorað 3 mörk fyrir A landsliðið.

Hannes og Kári heiðraðir

Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason voru heiðraðir fyrir feril sinn með A landsliði karla fyrir leik Íslands og Liechtenstein á Laugardalsvelli 11. október.

Hannes Þór Halldórsson er fæddur árið 1984 og er því 37 ára á þessu ári. Hans fyrsti A-landsleikur var leikur gegn Kýpur árið 2011 í undankeppni EM 2012. Hannes Þór lék á ferli sínum 77 A landsleiki og var aðalmarkvörður liðsins bæði á EM 2016 og HM 2018.

Kári Árnason lék sinn fyrsta A landsleik árið 2005, þá 23 ára gamall, þegar Ísland mætti Ítalíu í vináttuleik ytra. Kári, sem er fæddur 1982, lék á ferli sínum með A karla 90 leiki og skoraði í þeim 6 mörk, en hann var máttarstólpi í vörn Íslands á bæði EM 2016 og HM 2018.

Mynd - Mummi Lú

Jóhannes Karl ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla

Jóhannes Karl Guðjónsson var ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla í upphafi 2021, en hann tekur við starfinu af Eiði Smára Guðjohnsen.

Skagamaðurinn Jóhannes Karl lék með KA og ÍA í meistaraflokki hér á landi áður en hann hóf atvinnumannsferilinn þar sem hann lék í Belgíu, Hollandi, á Spáni og Englandi. Hann lék alls 34 A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2001-2007 og skoraði eitt mark, og á að auki leiki fyrir U21 og U19 landslið Íslands.

Jóhannes, sem er með KSÍ A þjálfaragráðu og lýkur UEFA Pro gráðu í vor, sneri heim eftir atvinnumennskuna og lék með ÍA, Fram, Fylki og HK áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun. Þjálfaraferilinn hóf hann hjá HK árið 2016 og var þar við stjórnvölinn þar til hann sneri heim á Skagann árið 2018 og tók við liði ÍA, sem hann hefur stýrt síðan, en hefur nú látið af því starfi.

Ísland í riðli 2 í B deild Þjóðadeildar UEFA

Dregið var um miðjan desember í Þjóðadeild UEFA, en Ísland er þar í B deild eftir að hafa fallið úr A deild í síðustu keppni.

Ísland dróst í riðil 2 með Rússlandi, Ísrael og Albaníu, en efsta lið riðilsins fer upp í A deild og það neðsta niður í C deild. Allir leikirnir fara fram í tveimur landsleikjagluggum árið 2022, fjórir í júní og tveir í september.

Í júní eru útileikir gegn Ísrael og Rússlandi, en heimaleikir gegn Albaníu og Ísrael. Í september leikur liðið svo heimaleik gegn Rússlandi og útileik gegn Albaníu.

Augnablik ...