Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tók til starfa á vormánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust. Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem getur aðstoðað og leiðbeint einstaklingum sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi eða misrétti í íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Þjónusta samskiptaráðgjafa er gjaldfrjáls.

Samskiptaráðgjafi hefur það markmið að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar.

Þjónusta og ráðgjöf samskiptaráðgjafa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi á landinu. Til samskiptaráðgjafa er hægt að leita með mál er varða andlegt-, líkamlegt- og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik sem hafa komið upp á vettvangi íþrótta- eða æskulýðsstarfs. Einnig mun samskiptaráðgjafi koma á samræmdum viðbragðsáætlunum á landsvísu í þessum málaflokkum.

Eftir samtal eða fyrstu samskipti við samskiptaráðgjafa er boðið upp á viðtal ef málið varðar áreitni, ofbeldi eða einelti. Þá er frekari upplýsinga aflað og í kjölfarið eru næstu skref ákveðin, ávallt í samráði við þann sem leitar til samskiptaráðgjafa. Einnig er hægt að leita eftir ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa, ekki þarf að fara lengra með mál ef viðkomandi kýs það ekki.

Heimasíða samskiptaráðgjafa mun þjóna sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Hægt er að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa í gegnum síðuna, tilkynna atvik og fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.

Heimasíða samskiptaráðgjafaKynning á starfi samskiptaráðgjafa

Verndun barna

Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur sett á laggirnar vefsíðu þar sem allir aðilar sem koma að knattspyrnustarfi barna og unglinga geta nálgast ýmsan fróðleik er snýr að verndun barna og hvernig gera má umhverfið í knattspyrnu öruggara fyrir börn og unglinga (UEFA Safeguarding).

Á þessu vefsvæði er m.a. hægt að taka stutt námskeið þar sem stuðst er við dæmisögur og farið í gegnum viðbrögð við hverju og einu dæmi sem sett er upp. Hvert námskeið tekur c.a. 15 mínútur.

Þarna er einnig að finna ýmsan fróðleik, greinar, rannsóknir o.fl. sem nýtast vel í leik og starfi.

KSÍ hvetur fulltrúa aðildarfélaga og aðra einstaklinga tengda knattspyrnuhreyfingunni eindregið til þess að skoða þessa síðu, áframsenda hana á starfsfólk/sjálfboðaliða innan sinna raða og hvetja til þátttöku á þessum örnámskeiðum.

Skoða örnámskeið

Trans börn og íþróttir

Árið 2019 voru samþykkt lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði sem voru mikil réttarbót fyrir trans fólk og kveða m.a. á um breytingar á skráningu kyns, nokkuð sem íþróttahreyfingin þarf að huga að. Undanfarin ár hafa fleiri trans börn stigið fram á Íslandi en hér áður fyrr og vill KSÍ tryggja að þau upplifi sig velkomin og örugg í fótboltanum.

KSÍ ákvað því að fá upplýsingar um hvernig best væri að taka á móti og halda utan um þennan hóp innan knattspyrnuhreyfingarinnar og fékk Svandísi Önnu Sigurðardóttur, sérfræðing í hinsegin- og kynjajafnréttismálum til þess að útbúa fræðslu um trans börn og íþróttir. Í fræðslunni fer Svandís Anna yfir nokkur grundvallaratriði og ræðir hvað þarf að gera til þess að trans börn njóti sín í íþróttum. Einnig fjallar hún um lög um kynrænt sjálfræði og hinseginvænni menningu í íþróttum. KSÍ hvetur aðildarfélög til að kynna sér fyrirlesturinn, deila honum innan sinna raða og innleiða þau atriði sem fjallað er um.

Lög nr. 80/2019

Frekari upplýsingar og hlekkir á fræðslu um málefnið má finna á vef KSÍ.

Vefur KSÍ um trans börn og íþróttir

Barnavernd - Æskulýðsvettvangurinn

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð.

Æskulýðsvettvangurinn býður upp á netnámskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að þekkja mismunandi birtingarmyndir kynferðisofbeldis, eineltis og annars ofbeldis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og vita hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp.

Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því. Námskeiðið, sem skiptist í tíu kafla og inniheldur fræðslu um líkamlegt og andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, vanrækslu, samskiptavanda og einelti, með áherslu á börn og ungmenni, er fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennum í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem og aðra áhugasaman um barnaverndarmál.

Í lok hvers kafla er stutt krossapróf sem þarf að ljúka til þess að halda áfram. Að loknu námskeiðinu geta þátttakendur fengið skírteini með staðfestingu á því að þeir hafi lokið námskeiðinu.

Námskeiðið er ókeypis og það getur tekið allt að klukkutíma að ljúka því.

Skoða nánar
Augnablik ...