Ávarp formanns

Ég er bjartsýn og jákvæð fyrir hönd knattspyrnunnar á Íslandi. Sóknartækifæri eru fjölmörg og leiðin liggur upp á við. Þetta ár hefur vissulega verið erfitt, fyrst Covid með öllum þeim áskorunum sem því fylgdu og svo þau erfiðu mál sem upp komu að hausti og höfðu neikvæð áhrif á trúverðugleika og ímynd KSÍ. Formaður og stjórn sögðu af sér og sambandið var í ólgusjó. Með markvissri vinnu horfir nú til betri vegar, storminn hefur lægt. Það þýðir þó ekki að við getum sofnað á verðinum, við þurfum að halda áfram og vera í fararbroddi þeirra sem vilja skapa örugga íþróttahreyfingu þar sem öllum líður vel.

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Mótahald

Þrátt fyrir Covid náðist að ljúka mótum, öfugt við árið á undan. Það var að sjálfsögðu gleðiefni en mörg félög glímdu eigi að síður við mikla fækkun áhorfenda. Það verður okkar sameiginlega verkefni, félaganna og KSÍ, að finna leiðir til að fjölga áhorfendum á ný. Bikarúrslitaleikir karla og kvenna á haustdögum gáfu góð fyrirheit og mikil stemmning skapaðist á báðum leikjum. Mig langar að nota tækifærið að þakka öllum sem komu að skipulagi og framkvæmd leikja og móta kærlega fyrir ykkar störf, oft við erfiðar og flóknar aðstæður. Þetta reyndi á en með samstilltu átaki innan félaganna tókst að aðlaga framkvæmd leikja að síbreytilegum reglum. Tilfinningin er að eftir reynslu undarfarinna tveggja ára séu okkur allir vegir færir. Ég er því fullviss um að tímabilið 2022 verði eitt okkar allra besta í öllum aldursflokkum.

Ég vil óska Íslandsmeisturum Vals og Víkings innilega til hamingju með sína titla, ásamt bikarmeisturum Breiðabliks. Þá gleðst ég með þeim liðum fóru upp um deild á síðasta tímabili. Við ykkur sem félluð vil ég segja að það kemur ár eftir þetta ár. Að láta mótbyr ekki stoppa sig er styrkleikamerki sem nýtist ekki aðeins á vellinum, heldur í lífi og starfi.

Fyrir þinginu liggja breytingatillögur á mótahaldi, einar mestu breytingar í manna minnum. Þrír starfshópar voru að störfum, sem skipaðir voru samkvæmt ályktun frá ársþingi. Hóparnir unnu mikið og gott starf, sem ber að þakka og skiluðu tillögum fyrir formanna- og framkvæmdastjórafund í nóvember. Eftir það voru samráðsfundir hvers starfshóps fyrir sig, ásamt því að kallað var eftir hugmyndum og athugasemdum frá félögum. Niðurstaða þessarar vinnu eru þær tillögur sem stjórn KSÍ leggur fyrir ársþing, ásamt tillögu um breytingar á efstu deild karla. Verði tillögurnar samþykktar munum við sjá verulegar breytingar á mótahaldi á þessu ári og því næsta. Tillaga frá Breiðabliki, FH og Val um varalið í meistaraflokki kvenna verður einnig lögð fram. Mikilvægt er að umræður um þessar breytingatillögur verði málefnalegar og ræddar með hag fótboltans að leiðarljósi. Gleymum ekki að við störfum öll fyrir fótboltann af áhuga og ástríðu, markmið okkar eru í raun þau sömu, þó að við séum ekki alltaf sammála um leiðirnar.

Mynd - Mummi Lú

Landslið

Síðasta ár var viðburðaríkt hjá landsliðunum okkar, ekki er hægt að segja annað. Mikil uppbygging er fram undan, ekki síst hjá A landsliði karla, þar sem mikil reynsla hvarf á braut en um 700 landsleikir hafa tapast úr liðinu frá ársbyrjun 2021.

Meðallandsleikjafjöldi þeirra ungu leikmanna sem spiluðu landsleiki á árinu er aðeins um 12,5 leikir. Ég tel afar mikilvægt að við flykkjum okkur á bak við þetta unga lið og styðjum við þá uppbyggingu sem hafin er. Sú uppbygging mun vafalaust taka 3-4 ár. Við ætlum okkur í fremstu röð á ný og teljum okkur hafa alla burði til þess. Ég tel að þolinmæði, skýrar áætlanir og elja séu hér lykilatriði. Arnar Þór Viðarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson fá það skemmtilega en um leið krefjandi verkefni að byggja upp A landslið karla.

A landslið kvenna stóð sig frábærlega á árinu. Þær eru að fara á EM í Englandi næsta sumar og eru í dauðafæri á að tryggja sér sæti á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2023. Liðið er skipað blöndu af eldri og reyndari leikmönnum, ásamt fjölda ungra og efnilegra. Við höfum aldrei átt jafn marga leikmenn í sterkustu deildum heims í kvennaboltanum og það vekur væntingar um góðan árangur til framtíðar. Þorsteinn Halldórsson og Ásmundur Haraldsson standa í brúnni og er liðið til alls líklegt. Tilhlökkun fyrir EM á Englandi er mikil og ég vona að fólk fjölmenni til að styðja stelpurnar.

Þar sem undankeppnum UEFA yngri landsliða fyrir tímabilið 2020/2021 var aflýst vegna Covid gátu liðin okkar hvorki tryggt sér keppnisrétt né keppt í milliriðlum 2021. Eina landslið okkar sem fór í keppnisferð fyrstu fimm mánuði ársins var U21 lið karla sem tók þátt í lokakeppni EM í Ungverjalandi í mars 2021. Á þessu lokamóti fengu margir af okkar efnilegustu leikmönnum ómetanlega reynslu í bankann sem mun án efa skila sér inn í A landslið karla á næstu árum. Fyrstu æfinga- og keppnisferðir ársins voru í júní þar sem fimm af okkar yngri landsliðum fóru í æfingabúðir á Selfoss. Þessar æfingabúðir eru að festa sig í sessi hjá okkar liðum þar sem aðstaða og stuðningur á Selfossi er til fyrirmyndar. U17 kvenna og U19 kvenna náðu þeim góða árangri að komast í milliriðil í „Nations League“ keppni UEFA, sem er ný keppni. U19 karla komst einnig í milliriðil „UEFA Elite Round“ sem fer fram núna í mars og verður gaman að fylgjast með því. Vegna Covid höfum við því miður misst út marga leiki og keppnir hjá yngri liðunum okkar en nú þegar fer að rofa til erum við spennt fyrir að komast aftur af stað á fullum krafti. Verkefnið snýst m.a. um að fjölga leikjum yngri landsliðanna okkar, því þar erum við eftirbátar þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við.

Að lokum við ég þakka landsliðsþjálfurum ásamt teymum í kringum liðin fyrir frábært starf, oft við krefjandi aðstæður. Við leikmenn landsliða vil ég segja: Spilið með hjartanu, gefist aldrei upp og berjist eins og ljón, fyrir ykkur sjálf, liðsfélagana og fyrir Ísland.

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Afreksstarf

Með eflingu knattspyrnusviðs, áframhaldandi vinnu með afreksstefnuna og ráðningu Grétar Rafns Steinssonar í stöðu tæknilegs ráðgjafa KSÍ hafa næstu skref verið stigin í afreksstarfi. Er það trú mín að í framhaldinu verði miklar framfarir, ekki síst á þeim sviðum þar sem við höfum því miður verið eftirbátar annarra þjóða. Á það einna helst við um um greiningarvinnu, skimun, öllu því sem kemur að rafræna hluta fótboltans ásamt stefnumótun til framtíðar. Þau stóru framfaraskref sem ég sé okkur geta tekið á næstu árum eiga ekki síður við um félagslið og ættum við að stefna ótrauð að betri árangri á Evrópumótum félagsliða. Breiðablik náði í haust að komast í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna og nú þurfum við öll að taka höndum saman og fylgja eftir þeim frábæra árangri. Ég er viss um að með samstarfi og samvinnu, lengra mótahaldi og markvissri þjálfun sé betri árangur handan við hornið. Við þurfum einnig að finna fleiri leiðir til að efla yngri leikmenn og verður breytingin á keppni í 3. flokki karla og kvenna vonandi lóð á þær vogarskálar.

Mynd - Mummi Lú

Barnastarfið og útbreiðsla

Grasrótarstarf og afreksstarf ganga hönd í hönd og annað getur ekki án hins verið. Við þurfum þó alltaf að gæta þess að ekki halli á grasrótarstarfið, þar sem athyglin er oftar meiri á afrekin.

Iðkendum hefur fjölgað á síðustu árum, sem er mjög jákvætt en eigi að síður eru sum félög að glíma við fækkun, ekki síst félög á landsbyggðinni. Því þarf að vinna á móti af miklum krafti, því eitt helsta markmið KSÍ er að fjölga iðkendum. Liður í því eru ýmis grasrótar- og útbreiðsluverkefni. Á árinu bar hæst að verkefnið „Komdu í fótbolta með Mola“ tvöfaldaðist að stærð frá árunum tveimur þar á undan. Moli, eða Siguróli Kristjánsson, fór í 60 heimsóknir um allt land síðasta sumar og hitti rúmlega 1200 börn, sem mörg hver voru að koma þriðja árið í röð. Markmiðið með verkefninu er að efla áhuga barnanna og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á staðnum. Moli ræðir einnig mikið um karakter og aðra félagslega þætti knattspyrnunnar. Minn vilji stendur til að útvíkka Mola-verkefnið, sækja um styrki úr sjóðum og hafa verkefnið í gangi allt árið.

Þjóðarleikvangur

Laugardalsvöllur er barn síns tíma, leikvangur á undanþágum og aðstaðan er með öllu óboðleg. UEFA hefur krafist svara um framkvæmdir og ljóst að aðgerða er þörf. Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, hefur lýst yfir miklum áhuga á verkefninu, sem er ánægjulegt. Nýr starfshópur þriggja ráðuneyta hefur hafið störf og á að skila skýrslu um miðjan mars á þessu ári. Vonandi er nú loks að birta til í málefnum Þjóðarleikvangs, því ekki verður unað við núverandi ástand mikið lengur.

Við þurfum völl sem uppfyllir kröfur um alþjóðaknattspyrnu, sem ýtir undir árangur en hamlar honum ekki, sem nýtist landsliðum og félagsliðum og býður upp á aðstöðu sem stenst kröfur nútímans. Glæsilegir knattspyrnuvellir spretta upp víða um Evrópu og ekki skortir á hugmyndir um uppbyggingu vallar hér á landi. Stjórnvöld þurfa því að bretta upp ermar og láta verkin tala.

Fjárhagur

Þetta var erfitt ár fjárhagslega fyrir KSÍ, eins og svo marga aðra innan íþróttahreyfingarinnar. Tap var á rekstrinum upp á tæpar 25 milljónir króna. Tapið á sér þó eðlilegar skýringar í þeim aðgerðum sem gripið var til í kjölfar ástandsins sem skapaðist í ágúst og september. Til að tapið yrði ekki meira en raun bar vitni var hagrætt á ýmsum sviðum. Alls var um 144 milljónum króna úthlutað til aðildarfélaga á árinu. Nauðsynlegt er að auka tekjur KSÍ, til að styrkja megi félögin enn betur.

Sjónvarpsréttur að leikjum A landsliðs karla var seldur fyrir nokkru til Viaplay og sjónvarpsrétturinn að leikjum A landsliðs kvenna var nýverið seldur til RÚV. Þessir samningar skipta KSÍ mjög miklu máli, ekki síst samningurinn við Viaplay, sem skilar sambandinu verulegum tekjum árlega. Að sama skapi er ánægjulegt að kvennalandsliðið verði á RÚV í opinni dagskrá. Í þessu samhengi vil ég óska ÍTF til hamingju með þá samninga sem gerðir hafa verið á síðustu mánuðum varðandi íslenskan fótbolta. Um er að ræða verðmætustu samninga þessarar tegundar sem gerðir hafa verið hér á landi og þeir sýna svo ekki verður um munað hversu verðmæt markaðsréttindi knattspyrnunnar eru orðin. KSÍ og ÍTF tóku höndum saman við þessa umfangsmiklu samningagerð sem er afskaplega jákvætt og lögðu ÍTF gríðarlega vinnu í hana alla, eiga þeir hrós skilið.

Covid hefur leikið mörg félög grátt, sem og KSÍ. Við höfum staðið í hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum núna á haustdögum og fram að ársþingi, með það að markmiði að íþróttahreyfingunni verði bætt það gríðarlega tekjutap sem mörg félög hafa orðið fyrir, einna helst vegna fækkunar áhorfenda og niðurfellingu viðburða. Við, ásamt forsvarsmönnum ÍSÍ, HSÍ og KKÍ höfum unnið saman að því að tryggja íþróttahreyfingunni styrki og vil ég þakka þeim kærlega fyrir samstarfið. Þrátt fyrir að málið hafi tafist er ég ennþá bjartsýn á að ríkisstjórnin sýni stuðning í verki.

Fræðslumál

Ýmislegt hefur gerst í fræðslumálum. Stærsta nýjungin er að UEFA setti nýlega þá kröfu að öll aðildarsambönd eiga eigi síðar en 2023 að bjóða upp á C þjálfaragráðu. Í janúar 2022 var í fyrsta skiptið boðið upp á slíkt námskeið, en þar er áhersla lögð á þjálfun barna á aldrinum fjögurra til tólf ára. Þjálfarar sem klára C þjálfaragráðuna hafa réttindi til að vera aðstoðarþjálfarar hjá 5. flokki og yngri. Ýmsar fleiri viðbætur í námskeiðaframboði okkar eru á döfinni. Þá hefur farið fram vinna í að efla enn frekar fræðslumál yngri landsliða.

Forvarnir og inngrip í ofbeldismál

Atburðir haustsins hafa varla farið fram hjá neinum. Ljóst er að hlutir fóru aflaga og verklag var ekki í lagi. Mér finnst mikilvægt að við stöndum við yfirlýsingar okkar og sýnum að okkur sé full alvara með að ætla að hlusta á þolendur, vinna gegn ofbeldi og taka á því af festu og fagmennsku. Fyrri stjórn setti ýmsa vinnu af stað í þessum tilgangi og ný stjórn hélt vinnunni áfram. Þetta er eilífðarverkefni sem mun fylgja okkur alla tíð. Besta leiðin er án nokkurs vafa að vera með öflugt forvarnarstarf. Bregðist það er mikilvægt að hafa tilbúna áætlun. Við unnum í þessu á haustmánuðum og nýtum Samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi okkur til ráðgjafar. Næstu skref eru að bíða eftir og skoða þá vinnu sem kemur úr þeim tveimur starfshópum sem eru að störfum og gera í kjölfarið heildræna inngrips- og forvarnaráætlun.

Að lokum

Á þessum tæpu fimm mánuðum sem liðnir eru frá því að ég tók við sem formaður hefur fólkið í hreyfingunni alltaf tekið mér vel. Það er svo margt gott fólk í þessari hreyfingu, sem hefur unnið af heilindum árum og jafnvel áratugum saman. Fólk með góð gildi, sterkir karakterar og góðar manneskjur. Þannig að mig langaði að þakka ykkur fyrir móttökurnar. Mér hefur liðið vel í starfi og hlakka alltaf til að fara í vinnuna.

Ég vil auk þess þakka stjórninni, starfsfólkinu og þjálfurum kærlega fyrir samveruna og samstarfið. Það er búin að vera frábært að vinna með ykkur. Fyrri stjórn og formanni vil ég einnig þakka fyrir þeirra störf í þágu knattspyrnunnar á Íslandi.

Verum stolt af að tilheyra þessari hreyfingu, við erum að vinna frábært og mikilvægt starf. Á þeim stundum þegar við verðum ósammála, munum þá að markmið okkar allra er að efla fótboltann.

Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þessa tæpu fimm mánuði. Reynslan sem ég hef öðlast er ómetanleg, fólkið sem ég hef kynnst er frábært. Það er heiður að vera formaður KSÍ.

Með fótbolta-kveðju
Vanda Sigurgeirsdóttir

Þar sem bæði ég og Guðni Bergson vorum formenn á árinu bauð ég honum að skrifa stutta kveðju til hreyfingarinnar. Hún kemur hér fyrir neðan. Kveðja, Vanda.

Kveðja Guðna Bergssonar, fyrrverandi formanns

Kæru félagar!

Mig langaði að kveðja ykkur á þessum vettvangi og þakka fyrir mig.

Margt gott hefur annars áunnist á undanförnum árum bæði innan vallar sem utan.
KSÍ hefur tekið breytingum með nýju markaðssviði og knattspyrnusviði sem hefur skilað stórauknum markaðstekjum og markvissara starfi á knattspyrnusviðinu með sérstökum yfirmanni þess. Við höfum látið jafnréttismál okkur varða með jöfnun stigabónusa og ítarlegri úttekt á kvennafótboltanum í viðamikilli skýrslu ásamt aðgerðarplani. Einnig náðist sá áfangi eftir síðasta ársþing að hlutfall kvenna í nefndum KSÍ fór yfir 30% eins og að hafði verið stefnt.

Landsliðin okkar undanfarin ár hafa náð frábærum árangri en við höfum komist og farið á stórmót með okkar karla-, kvenna- og unglingalið.

Á sama tíma hefur skráðum iðkendum í aðildarfélögunum fjölgað úr 22.000 í rúm 30.000.

Við höfum aukið framlag í ferðajöfnunarsjóð og eflt hæfileikamótun yngri leikmanna um allt land með hagsmuni landsbyggðarinnar í huga. Margt annað hefur áunnist sem ekki gefst tækifæri á að tilgreina frekar hér.

Aðildarfélögin eru að vinna gott starf um allt land. Mikill metnaður er ríkjandi með öflugu grasrótarstarfi sem aldrei fyrr en einnig með ríkari áherslu á afreksstarfið.
Þar getum við enn bætt okkur og munum vonandi á næstu árum efla enn frekar okkar afreksstarf innan KSÍ sem og hjá félögunum. Við þurfum svo sannarlega einnig að stjórnvöld taki löngu tímabæru ákvörðun um að byggja nýjan þjóðarleikvang.
Það hefur verið heiður og ánægja að vera formaður knattspyrnusambandsins þessi fjögur og hálft ár. Auðvitað hefði maður viljað að endirinn hefði verið ánægjulegri og umræðan undanfarið snúist meira um allt það góða sem að fótboltinn gefur okkur og hefur upp á að bjóða. Það þýðir þó ekki að fást um það heldur horfa björtum augum fram á veginn og við öll að vera staðráðin í að gera gott starf enn betra.

Mig langar í lokin að þakka ykkur öllum samstarfið undanfarin ár, bæði stjórnarfólki KSÍ og aðildarfélaganna, nefndarfólki, dómurum, sjálfboðaliðum, leikmönnum og stuðningsmönnum öllum ásamt því frábæra starfsfólki og þjálfurum KSÍ sem gaman var að starfa með. Ég vil einnig nota tækifærið og óska verðandi formanni og komandi stjórn velfarnaðar.

Með kærri kveðju!
Guðni Bergsson

Augnablik ...