A landslið kvenna

Undankeppni HM 2023 hófst á árinu

Í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 var ekki farið í verkefni í febrúar, en þar átti Ísland að taka þátt í fjögurra liða móti í Frakklandi. Fyrstu leikir liðsins á árinu voru því tveir vináttuleikir gegn Ítalíu í Flórens í apríl. Leikirnir voru jafnframt fyrstu leikir liðsins undir stjórn nýs þjálfara, Þorsteins H. Halldórssonar, en hann tók við liðinu í upphafi árs. Báðir leikirnir fóru fram á æfingasvæði ítalska knattspyrnusambandsins í Flórens og voru þeir báðir mjög jafnir. Fyrri leikurinn endaði með 1-0 sigri Ítalíu og sá síðari með 1-1 jafntefli. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði mark Íslands undir lok fyrri hálfleiks.

Í lok apríl var dregið í undankeppni HM 2023 og lenti Ísland þar í riðli með Evrópumeisturum Hollands, Tékklandi, Hvíta-Rússlandi og Kýpur. Undirbúningur fyrir undankeppni HM hélt áfram í júní þegar leiknir voru tveir vináttuleikir gegn Írum á Laugardalsvelli. Fyrri leikurinn endaði með 3-2 sigri Íslands, Agla María Albertsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu allar í fyrri hálfleik. Írar komu sterkari til leiks í þeim síðari, skoruðu í byrjun hans og undir lokin. Íslenska liðið vann einnig seinni leikinn, 2-0, þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoruðu í síðari hálfleik.

Ísland hóf undankeppni HM á sannkölluðum stórleik á Laugardalsvelli þegar Hollendingar mættu til leiks. Það fór hins vegar svo að gestirnir höfðu betur í hörkuleik, 0-2. Tveir heimaleikir fóru fram í keppninni í október og unnust þeir báðir. Fyrst vann Ísland frábæran 4-0 sigur gegn Tékklandi, en þær höfðu mánuði fyrr náð jafntefli í Hollandi. Berglind Björg, Dagný, Svava Rós Guðmundsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoruðu mörkin í leiknum, en þetta var fyrsti sigur liðsins gegn Tékklandi. Kýpverjar mættu svo á Laugardalsvöll nokkrum dögum síðar og vann Ísland þar sannfærandi 5-0 sigur. Dagný, Sveindís Jane Jónsdóttir með tvö, Karólína Lea og Alexandra Jóhannsdóttir skoruðu mörk Íslands.

Síðustu leikir ársins voru svo tveir leikir í nóvember og fóru þeir báðir fram ytra. Ísland mætti Japan í vináttuleik sem leikinn var í Hollandi. Íslenska liðið lék frábærlega í þeim og uppskar öruggan 2-0 sigur. Sveindís Jane skoraði fyrra mark leiksins og Berglind Björg það síðara. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur Japan. Liðið ferðaðist svo til Kýpur og náði í þrjú stig þangað með góðum 4-0 sigri. Karólína Lea, Berglind Björg, Sveindís Jane og Guðrún Arnardóttir skoruðu mörkin. Sú síðastnefnda var að skora sitt fyrsta landsliðsmark.

Í desember var svo loksins komið að því að draga í lokakeppni EM 2022, en mótið átti upphaflega að fara fram sumarið 2021. Mótherjarnir þar verða Frakkland, Ítalía og Belgía. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik sínum á mótinu 10. júlí á Manchester City Academy Stadium.

UEFA tvöfaldar verðlaunafé vegna EM 2022

Þær 16 þjóðir sem taka þátt í keppninni munu skipta á milli sín 16 milljónum evra, en á EM 2017 var upphæðin 8 milljónir evra.

Á sama tíma ákvað UEFA að samþykkja í fyrsta sinn innleiðingu bótakerfis fyrir félög þeirra leikmanna sem taka þátt í keppninni. Með því verða 4.5 milljónir evra til staðar til að umbuna þeim evrópsku félögum sem eiga leikmenn í mótinu.

Skiptingin er reiknuð eftir ákveðinni reikniformúlu sem í stuttu máli miðast við þann fjölda daga sem hver leikmaður er með sínu landsliði vegna undirbúnings fyrir mótið (hámark 10 dagar) og svo vegna þátttöku í mótinu. Upphæðin per leikmann er 500 evrur á dag og greiðslurnar munu berast félögunum í október/nóvember 2022. Fyrir hvern leikmann ætti því félagslið að fá að lágmarki 10.000 evrur.

-Greiðslur eru einungis vegna leikmanna sem eru í 23 manna lokahópi hvers landsliðs.
-Einungis evrópsk félagslið eiga rétt á þessum greiðslum.
-Engar greiðslur eru vegna leikmanna sem eru án félags.

Nánar á vef UEFA

Mikil eftirspurn eftir miðum á leiki Íslands á EM 2022

Miðasala á keppnina fer öll fram í gegnum miðasöluvef UEFA og voru miðasölugluggar opnir í október og nóvember. Miðar á fyrstu tvo leiki liðsins í Manchester seldust hratt upp, en ennþá er hægt að fá miða á lokaleik Íslands í riðlakeppninni gegn Frakklandi í Rotherham.

Næsti miðasölugluggi er skv. upplýsingum frá UEFA um miðjan febrúar þar sem þeir miðar sem hafa ekki gengið út af ýmsum ástæðum verða seldir og verður um "fyrstir koma, fyrstir fá" fyrirkomulag að ræða.

Allar upplýsingar um miðasölu á keppnina er að finna á miðasöluvef UEFA.

Miðasöluvefur UEFA
Augnablik ...