Evrópukeppnir

Mynd - Mummi Lú

Meistaradeild UEFA (konur)

Breiðablik og Valur léku í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, en þetta var í fyrsta sinn sem tvö íslensk lið taka þátt í keppninni. Leikið var í fyrsta sinn með nýju fyrirkomulagi í keppninni, lið þurfa að fara í gegnum tvö skref af forkeppni áður en kemur að 16 liða riðlakeppni í fjórum fjögurra liða riðlum.

Fyrri umferð forkeppninnar fór fram í ágúst. Breiðablik vann sannfærandi sigra gegn KÍ frá Færeyjum, 7-0, og FC Gintra frá Litháen, 8-1, og tryggði sér því sæti í næstu umferð forkeppninnar. Valur tapaði 0-1 fyrir Hoffenheim frá Þýskalandi og átti því ekki möguleika á að komast áfram í næstu umferð. Valur vann svo FC Zürich Frauen 3-1 í leik um þriðja sæti riðilsins.

Breiðablik mæti ZNK Osijek í annarri umferð forkeppninnar, en leikið var heima og að heiman. Liðið skildu jöfn í fyrri viðureigninni í Króatíu, 1-1, áður en Breiðablik vann leikinn á Kópavogsvelli 3-0. Liðið dróst svo í riðil með PSG, Real Madrid og WFC Kharkiv.

PSG var yfirburðarlið í riðlinum, vann alla sex leiki sína, skoraði 25 mörk og fékk ekki á sig neitt. Real Madrid endaði í öðru sæti riðilsins með 12 stig, WFC Kharkiv í þriðja sæti með fjögur stig og Breiðablik var neðst með eitt stig. Stigið kom þegar liðið gerði jafntefli við WFC Kharkiv í Úkraínu.

Aukið fé í Meistaradeild kvenna

UEFA ákvað á árinu að auka fjármagn í Meistaradeild kvenna. Í heildina verður ráðstafað 24 milljónum evra í keppnina á þessu tímabili, en 5.6 milljónir evra, eða 23% af upphæðinni, mun fara beint í þróunarsjóð félaga í kvennaknattspyrnu. Þessi sjóður tekur mið af hinu fjölbreytta landslagi og mismunandi stöðu félaga og knattspyrnusambanda í Evrópu og er honum ætlað að hvetja til frekari vaxtar kvennaknattspyrnu alls staðar.

Öll þau aðildarlönd UEFA sem áttu a.m.k. eitt lið sem tók þátt í Meistaradeild kvenna á þessu tímabili munu fengu fjármagn sem mun deilast jafnt á öll þau félög í efstu deild kvenna sem tóku ekki þátt í Meistaradeildinni á tímabilinu. Upphæðin er beintengd árangri félaga frá viðkomandi knattspyrnusambandi í Meistaradeildinni. Því lengra sem félag kemst, því hærri upphæðir er um að ræða. Ef fleiri en eitt félag tekur þátt er árangur þess liðs sem kemst lengra í keppninni notaður til að reikna út lokaupphæðina.

Meistaradeild UEFA (karlar)

Valur tók þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og mætti þar króatísku meisturunum Dinamo Zagreb. Fyrri leikur liðanna var leikinn í Zagreb og endaði hann með naumum sigri heimamanna, 3-2, og því ljóst að Valur eygði smá möguleika á að komast áfram í næstu umferð. Liðin mættust á Origo vellinum viku síðar þar sem Dinamo Zagreb vann leikinn 2-0 og fór því áfram.

Í ljósi tapsins færðist Valur yfir í forkeppni nýrrar Evrópukeppni, Sambandsdeildarinnar, þar sem Valur dróst gegn norsku meisturunum í Bodo/Glimt. Norðmennirnir unnu báðar viðureignirnar nokkuð sannfærandi með þremur mörkum gegn engu og 6-0 samanlagt tap niðurstaðan fyrir Val.

Sambandsdeild UEFA (karlar)

Ásamt Val tóku Breiðablik, FH og Stjarnan þátt í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Í fyrstu umferð mætti Stjarnan Bohemian FC frá Írlandi. Fyrri leikur liðanna endaði með 1-1 jafntefli á Samsung vellinum, en Írarnir unnu síðari leikinn 3-0 í Dublin. Stjarnan því fallin úr keppninni.

FH mætti Sligo Rovers, einnig frá Írlandi, í fyrstu umferð og unnu FH-ingar báða leikina, 1-0 í Kaplakrika og svo 2-1 á Írlandi. Í næstu umferð drógust þeir gegn Rosenborg frá Noregi. Norska liðið vann báða leikina, þann fyrri í Kaplakrika 2-1 og síðari 4-1 í Þrándheimi.

Breiðablik lék gegn Racing FC Union frá Lúxemborg í fyrstu umferð. Blikar fóru til Lúxemborgar í fyrri leiknum og sóttu 3-2 sigur. Síðari leikinn á Kópavogsvelli unnu þeir svo 2-0. Næst mætti Breiðablik Austria Wien frá Austurríki. Blikar léku þar tvo frábæra leiki, gerðu 1-1 jafntefli ytra og unnu svo heimaleikinn 2-1. Frábær árangur hjá Breiðablik og liðið komið áfram í þriðju umferð. Þar drógust þeir gegn Aberdeen frá Skotlandi. Báðir leikirnir voru gríðarlega jafnir og spennandi, en svo fór að Aberdeen vann þá báða með einu marki, 3-2 á Kópavogsvelli og 2-1 í Skotlandi.

Augnablik ...