Mótin innanlands

Pepsi Max deild karla

Víkingur R. varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í fyrsta sinn í 30 ár, en síðast lyfti liðið titlinum árið 1991. Deildin var mjög jöfn og þegar hún var hálfnuð munaði aðeins þremur stigum á efstu þremur sætum. Valsmenn voru lengst af í efsta sæti deildarinnar, eða allt fram að 17. umferð en eftir það fataðist þeim flugið og enduðu þáverandi Íslandsmeistarar í fimmta sæti. Víkingar komust tvisvar í efsta sæti deildarinnar á fyrri helmingi mótsins, en það var svo ekki fyrr en í 21. umferð sem þeir komust á toppinn aftur með dramatískum 2-1 útisigri gegn KR á meðan Breiðablik tapaði með minnsta mun í Kaplakrika gegn FH. Víkingar tryggðu sér svo titilinn í lokaumferðinn með sigri gegn Leikni R. í Víkinni.

Nikolaj Hansen var valinn leikmaður ársins í Pepsi Max deild karla, en hann var jafnframt langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 16 mörk í 21 leik og Kristall Máni Ingason var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar.

Meistarakeppni KSÍ fór ekki fram og ekki tókst að klára Lengjubikarinn vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Best sótti leikurinn í Pepsi Max deild karla var viðureign Víkings R. og Leiknis R. í lokaumferð deildarinnar þann 25. september þar sem 2.023 manns mættu til að sjá Víking R. tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Heildaraðsókn að leikjunum 132 sem voru leiknir í Pepsi Max deild karla var 64.891 og meðaltalið á hverjum leik var 491. Hafa þarf í huga að á fjölmörgum leikjum voru miklar fjöldatakmarkanir sem hafði auðvitað mikil áhrif á heildaraðsókn og meðalfjölda áhorfenda.

Pepsi Max deild kvenna

Valur varð Íslandsmeistari og er þetta tólfti Íslandsmeistaratitill félagsins frá upphafi. Liðið komst í efsta sætið í 8. umferð, hélt því allt til loka móts og endaði tímabilið níu stigum á undan Breiðabliki sem endaði í öðru sæti.

Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki, var valin leikmaður ársins. Hún lék alla 18 leiki liðsins í deildinni og allar þær mínútur sem leiknar voru, og þessum 18 leikjum skoraði hún 12 mörk.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Þrótti R., var valin efnilegasti leikmaður deildarinnar. Ólöf Sigríður lék 15 leiki og skoraði í þeim 8 mörk, en Þróttur R. átti frábært tímabil og endaði í 3. sæti deildarinnar ásamt því að komast í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna.

Líkt og karlamegin fór Meistarakeppni KSÍ ekki fram og ekki tókst að klára Lengjubikarinn vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Meðalaðsókn að leikjum Pepsi Max deildar kvenna var heldur lægri en árið á undan. Heildaraðsókn að leikjunum 90 var 14.154 og meðalaðsóknin því 157. Best sótti leikurinn var viðureign Breiðabliks og Vals þann 13. ágúst þar sem 616 manns mættu á Kópavogsvöll. Hafa þarf í huga að á fjölmörgum leikjum voru miklar fjöldatakmarkanir sem hafði auðvitað mikil áhrif á heildaraðsókn og meðalfjölda áhorfenda.

Mjólkurbikarinn

Meistaraflokkur kvenna

Breiðablik varð Mjólkurbikarmeistari kvenna eftir 4-0 sigur gegn Þrótti R. í úrslitaleiknum, en þetta var í fyrsta sinn sem Þróttur R. kemst í úrslit í meistaraflokki kvenna. Breiðablik var mun sterkari aðilinn í úrslitaleiknum, Blikar voru 2-0 yfir í hálfleik og bættu síðan tveimur mörkum við í þeim síðari. Þrettándi bikarmeistaratitill Breiðablik staðreynd.

Meistaraflokkur karla

Víkingur R. og ÍA mættust í úrslitaleik Mjólkurbikars karla. Víkingar voru ríkjandi bikarmeistarar frá því árið 2019, en ekki tókst að klára Mjólkurbikarinn 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-19, á meðan ÍA komst í úrslitaleikinn í fyrsta sinn síðan 2003. Víkingar reyndust sterkari aðilinn, skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik og bættu einu við í þeim síðari. Með sigrinum varði liðið því bikarmeistaratitil sinn og varð tvöfaldur meistari, en það hafði ekki gerst í meistaraflokki karla síðan 2011.

Íslandsmótið í Futsal

Íslandsmótið í Futsal, innanhússknattspyrnu, fór ekki fram vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Augnablik ...