Komdu í fótbolta með Mola
Verkefnið "Komdu í fótbolta", samstarfsverkefni KSÍ og Landsbankans, hélt áfram sumarið 2021 og felur í sér heimsóknir til minni sveitarfélaga um land allt. Siguróli Kristjánsson, oftast kallaður Moli, hefur umsjón með verkefninu og setur hann upp skemmtilegar og fjölbreyttar fótboltabúðir á hverjum stað til að efla áhuga iðkenda og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á staðnum.
Moli er Akureyringur í húð og hár og lék um árabil með Þór, auk þess sem hann hefur þjálfað hjá félaginu í mörg ár. Þess má einnig geta að hann á tvo A landsleiki að baki.
Árið 2021 var algjört metár í verkefninu, en þetta var þriðja sumarið sem það fór fram. Moli fór í 60 heimsóknir um allt land og hitti rúmlega 1.200 börn. Hann fór á 26 nýja staði frá árunum á undan og því tók fjöldi barna sem mættu á viðburðina mikinn kipp. Allsstaðar þar sem Moli mætti með Panna völlinn var mikil gleði og ánægja og var stór hluti barnanna að koma þriðja árið í röð.
Frekar upplýsingar um verkefnið og myndir frá heimsóknunum má finna á vef KSÍ.
Háttvísisverðlaun Landsbankans og KSÍ
Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ eru ný verðlaun sem standa mótshöldurum knattspyrnumóta yngri flokka til boða í sumar. Með verðlaununum viljum við verðlauna háttvísi og heiðarlega framkomu allra sem að mótum koma. Á þetta fyrst og fremst við leikmenn, en ekki síður þjálfara, foreldra, áhorfendur og aðra aðstandendur.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Landsbankans hér að neðan:
Markmannsskóli KSÍ
Markmannsskóli KSÍ var haldinn að nýju eftir þriggja ára hlé. Í október mættu 13 stúlkur í Markmannsskóla KSÍ sem haldinn var á Akranesi. Umsjónarmaður Markmannsskólans var Hjördís Brynjarsdóttir og æfingar voru í höndum Fjalars Þorgeirssonar, yfirmarkmannsþjálfara yngri landsliða Íslands.
Fyrirlestrarröð um fjármál í fótboltanum
Boðið var upp á fyrirlestrarröð um fjármál í fótboltanum. Þórir Hákonarson, íþróttastjóri Þróttar og fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, hafði veg og vanda að fyrirlestrarröðinni. Þórir fékk til sín vel valda gesti en erindin voru fjögur talsins. Allir fyrirlestrarnir voru með tilvísun í knattspyrnuumhverfið á Íslandi og voru raunveruleg dæmi tekin.
Efni fyrirlestrana
- Laugardagur 27. mars - Alþjóðastofnanir, regluverk og mótahald FIFA og UEFA – fjárhagslegt umhverfi félaganna, financial fair play, uppeldisbætur/samstöðubætur.
- Sunnudagur 28.mars - Rekstrarmódel knattspyrnufélaga, kostun, eignarhald – sjónvarps– og markaðsréttindi, mismunandi útgáfur og nálgun deilda í Evrópu.
- Laugardagur 10.apríl - Veðmálastarfsemi, umfang, veðmálasvind, hagræðing úrslita – velta og rekstur knattspyrnusambanda og félaga í Evrópu og á Íslandi.
- Sunnudagur 11.apríl - Samantekt.