Árið sem leið
Knattspyrnufólk ársins
Leikmannaval KSÍ valdi Sveindísi Jane Jónsdóttur og Kára Árnason knattspyrnufólk ársins 2021. Þetta var í 18. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.
Sveindís Jane Jónsdóttir er Knattspyrnukona ársins í fyrsta skipti. Sveindís Jane gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg í upphafi árs, en var svo lánuð til Svíþjóðar þar sem hún lék með Kristanstads DFF á nýliðnu tímabili. Þar átti hún stóran þátt í góðu gengi liðsins sem tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Sveindís Jane lék 24 leiki með liðinu á tímabilinu og skoraði í þeim átta mörk. Hún er einnig orðin fastur liður í byrjunarliði íslenska kvennalandsliðsins sem leikur í lokakeppni EM 2022 næsta sumar. Á árinu hefur hún leikið átta leiki með liðinu og skorað í þeim fjögur mörk
Kári Árnason er Knattspyrnumaður ársins í fyrsta skipti. Kári lék með Víkingi R. á síðasta tímabili, en lagði skóna á hilluna að því loknu. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu í sumar, en Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn síðan 1991 ásamt því að verja Mjólkurbikarinn. Kári lék 23 leiki í deild og bikar á tímabilinu og skoraði í þeim eitt mark, en það kom einmitt í síðasta leik hans á ferlinum, í bikarúrslitunum gegn ÍA.
Hann lék þrjá leiki með íslenska karlalandsliðinu á árinu, en fyrir leik liðsins gegn Liechtenstein 11. október var hann heiðraður fyrir feril sinn með liðinu.
Sara Björk í liði ársins hjá stuðningsmönnum á vef UEFA
Sara Björk Gunnarsdóttir var í liði ársins sem kosið var af stuðningsmönnum á vef UEFA.
Kosningin er enn ein rósin í hnappagat hennar, en hún var kosin íþróttamaður ársins 2020 á Íslandi, tilnefnd sem besti miðjumaður Meistaradeildar Evrópu 2020 og er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem tryggði sér sæti á EM 2022.
Úthlutað til 16 verkefna úr Mannvirkjasjóði KSÍ
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í júní úthlutun úr mannvirkjasjóði KSÍ. Þetta var í fjórtánda skiptið sem úthlutað er úr sjóðnum, en ný reglugerð um sjóðinn tók gildi í byrjun árs 2012. Alls var úthlutað til 16 verkefna, samtals 30 milljónir.
Merki KSÍ tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna
Knattspyrnusamband Íslands og auglýsingastofan Brandenburg hlutu tilnefningar til alþjóðlegu hönnunarverðlaunanna The One Show fyrir ásýnd íslensku landsliðanna í knattspyrnu.
The One Show eða Gyllti blýanturinn, eru meðal virtustu auglýsinga- og hönnunarverðlauna í heimi og hafa verið veitt í næstum 50 ár.
Áður hefur verkefnið fengið hin virtu Clio verðlaun og tilnefningu til Epica verðlaunanna. Þá fékk verkefnið nýverið Lúðurinn í flokki mörkunar þegar markaðsverðlaun ÍMARK voru veitt.
Skýrsla FIFA um stöðu knattspyrnunnar á Íslandi
Á síðustu misserum hefur FIFA unnið greiningar og sérstakar skýrslur um stöðu knattspyrnunnar í flestum knattspyrnusamböndum heimsins, þar sem farið er yfir hvað er vel gert og hvað betur mætti fara, og þar sem við á eru gerðar tillögur um úrbætur. Í skýrslunum, sem kallast Talent Development – Football Ecosystem Analysis, er m.a. fjallað um stjórnunarlega þætti og mannauð, landslið og hæfileikamótun, mótahald og fræðslu, og ýmislegt fleira. Skýrslan fyrir Ísland var unnin á þessu ári í samstarfi FIFA og Knattspyrnusviðs KSÍ og á fundi stjórnar KSÍ þann 23. nóvember síðastliðinn kynntu fulltrúar FIFA skýrsluna um Ísland fyrir stjórninni.
Smellið hér að neðan til að skoða skýrsluna nánar. Framarlega í skýrslunni er samantekt á helstu niðurstöðum, auk myndrænnar framsetningar á ýmsum lykilniðurstöðum.
KSÍ tilnefnt til UEFA Grow verðlaunanna 2021
KSÍ var tilnefnt til UEFA Grow verðlaunanna fyrir árið 2021 í flokknum "vinna við mörkun".
Ásamt KSÍ voru knattspyrnusamband Finnlands og knattspyrnusamband Þýskalands tilnefnt í flokknum. KSÍ var tilnefnt fyrir þróun nýs vörumerkis íslensku landsliðanna í knattspyrnu, en knattspyrnusamband Finnlands fékk verðlaunin.
Styrkir frá UEFA til verkefna sem tengjast málefnum flóttafólks og hælisleitenda
Aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk í sérstakan sjóð vegna knattspyrnutengdra verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Með sjóðnum, sem settur var á laggirnar árið 2017, eru knattspyrnusambönd í Evrópu hvött til að starfa með knattspyrnufélögum, samtökum eða öðrum aðilum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til knattspyrnutengdra verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra.
Hægt er að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin og getur upphæð styrksins numið allt að 40.000 evrum, og að hámarki 70% af kostnaði verkefnisins. Ekki er hægt að sækja um styrk fyrir verkefni sem er lokið. Hvert knattspyrnusamband / aðildarland UEFA getur sent eina umsókn.
Samtök eða aðrir aðilar hérlendis sem þegar starfa að málefnum flóttafólks eða hælisleitenda, og vinna að yfirstandandi verkefnum eða hefðu áhuga á að stofna til nýrra verkefna í samstarfi við KSÍ, eru hvött til að hafa samband við Ómar Smárason, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ (omar@ksi.is). Umsóknir þurfa að berast KSÍ eigi síðar en 15. febrúar. Berist fleiri en ein umsókn mun KSÍ skipa valnefnd. Þeirri umsókn sem verður fyrir valinu þarf að skila frá KSÍ til UEFA eigi síðar en 25. febrúar.
Valnefnd UEFA, sem skipuð er fulltrúum UEFA og ýmsum sérfræðingum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, mun meta umsóknirnar, velja þau verkefni sem hljóta styrk og tilkynna um niðurstöðuna á vormánuðum 2022.
Verkefni tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 20. janúar.
Á meðal tilnefndra verkefna var „Sálfræðileg hæfnisþjálfun ungra knattspyrnuiðkenda á Íslandi“, verkefni sem unnið var fyrir KSÍ af Grími Gunnarssyni, MSc nema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur hans voru dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti Íþróttadeildar Háskólans í Reykjavík og Arnar Þór Viðarsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ.
Meðal þess sem Grímur gerði var að sinna sálfræðilegum mælingum og vinnustofu U15 úrtakshóps og með þeirri vinnu sýnt hvernig hægt er að nota SoccerLAB til að vinna með niðurstöður sálfræðimælinga sem og verkefnavinnu. Samhliða því skrifaði hann fræðslubók sem snýr að grunnfræðslu um sálfræði í knattspyrnu, sem getur einnig átt erindi til iðkenda annarra íþrótta.
Leikir A landsliðs karla á Viaplay árin 2022-2028
Leikir A landsliðs karla árin 2022-2028 verða sýndir á streymisveitunni Viaplay sem er í eigu NENT (Nordic Entertainment Group). UEFA selur markaðs- og sjónvarpsréttindi að leikjum A landsliða karla (mótsleikir og vináttuleikir) samkvæmt sérstökum samningi þar um fyrir hönd flestra sinna aðildarlanda (þar á meðal fyrir KSÍ).
Markmiðið með sölu markaðs- og sjónvarpsréttinda er að hámarka mögulegar tekjur af slíkum samningum fyrir viðkomandi knattspyrnusambönd, enda eru sjónvarpsréttindi stór og gríðarlega mikilvæg tekjulind í knattspyrnu.
20 útskrifuðust af UEFA CFM
Þriðja og síðasta vinnulotan í UEFA CFM náminu sem nú var haldið í fyrsta sinn hjá KSÍ fór fram í byrjun árs. Vinnulotunni lauk með rafrænni útskriftarveislu og útskrifuðust 20 af þeim 30 nemendum sem hófu námið í mars 2020.
UEFA CFM (UEFA Certificate in Football Management) er stjórnunarnám á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fyrir einstaklinga sem starfa í knattspyrnuhreyfingunni eða tengjast henni með beinum hætti. Námið er á háskólastigi og hefur verið skipulagt af UEFA síðan árið 2010 í samstarfi við svissnesku námsstofnunina IDHEAP (The Swiss Graduate School of Public Administration, við háskólann í Lausanne).
Sækir nám í alþjóðlegri samningagerð og gerðardómsrétti
Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur á skrifstofu KSÍ, verður í námsleyfi frá miðjum september 2021 til loka maí mánaðar 2022. Haukur mun sækja nám í Alþjóðlegri samningagerð og gerðardómsrétti (International contracts and arbitration) við Fribourg-háskóla í Sviss.
Um er að ræða nám til LLM gráðu í lögfræði. Haukur sótti sérstaklega um og hlaut skólastyrk frá skólanum (excellence scholarship), en slíkan styrk hljóta 10 nemendur við skólann ár hvert.
Í janúar var Haukur ráðinn til sex vikna í starfsnám í málaferladeild FIFA (FIFA Litigation Division). Deildin er hliðardeild við lögfræðideild FIFA og sér um öll málaferli FIFA, þá allra helst málaferli FIFA hjá Alþjóða Íþróttadómstólnum í Lausanne í Sviss (Court of Arbitration for sport - CAS).
Nýtt rafrænt kerfi fyrir félagaskipti innanlands
Skrifstofa KSÍ lét á árinu útbúa nýtt rafrænt kerfi fyrir afgreiðslu félagaskipta og opnaði það formlega í lok júní á innri vef KSÍ. Um ræðir vefhýstan tölvuhugbúnað til notkunar fyrir skrifstofu KSÍ og aðildarfélög innan KSÍ, sem hannaður er til að sjá um stýringu og afgreiðslu á félagaskiptum innanlands á skilgreindum félagaskiptatímabilum.
Rafrænu félagaskiptakerfi er ætlað að einfalda til muna þá verkferla og takmarka þann tíma sem liggja að baki afgreiðslu félagaskipta, bæði hjá félögum og hjá skrifstofu KSÍ.
KSÍ semur við FootoVision
KSÍ samdi á árinu við FootoVision um notkun á hugbúnaði fyrirtækisins við gagnasöfnun og leikgreiningu í tengslum við leiki landsliða (optical tracking). Um reynslutíma er að ræða, en FootoVision er enn eitt skrefið sem KSÍ tekur í því að þróa og styrkja tölfræðilega þáttinn í umgjörð landsliða.
FootoVision skilar nákvæmum tölfræðigögnum í yfir 900 mælieiningum (KPI´s) um frammistöðu liðs og leikmanna (leikfræðilegur og líkamlegur hluti leiks) með sjálfvirkri greiningu á myndbandsupptökum úr leikjum. Skýrslurnar nýtast bæði við greiningu á mótherjum og á eigin liði.
Ákvæði um fæðingarorlof í reglugerð um samninga kvenkyns leikmanna
Á fundi stjórnar KSÍ 9. september sl. samþykkti stjórn breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Um ræðir nýjar greinar 15-19 í reglugerðinni og mikilvægar breytingar sem snúa m.a. að skuldbindingargildi samninga og samningsbrot félaga og samningsleikmanna, og sérstökum réttindum kvenkyns leikmanna, m.a. varðandi fæðingarorlof (lengd orlofs, greiðslur til leikmanns, brjóstagjöf, o.fl.).
Breytingarnar voru unnar að höfðu samráði við Íslenskan toppfótbolta (ÍTF) og Leikmannasamtök Íslands og voru í vinnslu frá nóvember 2020. Ákvæði um samningsbrot, riftun samninga og viðurlög hafa verið aðlöguð íslenskum aðstæðum eins og kostur er, en ákvæði FIFA um fæðingarorlof kvenkyns leikmanna eru skyldubundin ákvæði sem taka til leikmanna á leikmannssamningum (professional players).
Málþing fyrir konur í stjórnum og ráðum knattspyrnudeilda
Málþing fyrir konur í stjórnum og ráðum knattspyrnudeilda var haldið föstudaginn 22. október í höfuðstöðvum KSÍ í tengslum við leik Íslands og Tékklands í undankeppni HM kvenna sem fram fór sama dag. Málþingið var afar vel sótt, um sextíu konur frá 28 félögum víðsvegar um land sóttu málþingið en tilgangur þess var að efla konur í knattspyrnuhreyfingunni og mynda tengslanet fyrir þær.
Jóladagatal íslenska kvennalandsliðsins
KSÍ gaf út í nóvember jóladagatal íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Dagatalið var framleitt á Íslandi og inniheldur 24 númeruð umslög með 48 fótboltaspjöldum sem skarta myndum og fróðleik um íslenskar landsliðskonur fyrr og nú. Dagatalið er frábær leið til að kynnast stelpunum í landsliðinu betur áður en þær halda á EM á Englandi á næsta ári.
Með dagatalinu var talið niður til jóla með okkar fremstu landsliðskonum eins og Söru Björk, Glódísi Perlu, Söndru Sig, yngri og upprennandi landsliðskonum eins og Amöndu, Sveindísi Jane sem og fyrrverandi landsliðskonum sem spilað hafa yfir 100 landsleiki eins og Margréti Láru og Eddu Garðars.
Þau sem eignuðst dagatalið höfðu möguleika á að taka þátt í leik sem nefndist ‘Byrjunarliðið’ og vinna vegleg verðlaun eins og Apple Watch, áritaða landsliðstreyju o.fl.
Framleiðsla, hönnun og efnisöflun var í höndum Berglindar Ingvarsdóttur og Þorbjargar Helgu Ólafsdóttur. Hugmyndin kemur einnig frá Berglindi og Þorbjörgu Helgu sem bjuggu til dagatal með 24 bestu fótboltakonum í heimi fyrir jólin 2020 fyrir fjáröflun dætra sinna sem spila í yngri flokkum Þróttar R. Það hefur verið klár vöntun á fótboltaspjöldum í kvennaboltanum og var þessi útgáfa því frábær viðbót við það sem hefur verið í boði hingað til.
Grétar Rafn til KSÍ
Grétar Rafn Steinsson hefur verið ráðinn til KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnusviðs. Ráðningin er tímabundin til 6 mánaða og hefur Grétar Rafn strax störf. Með ráðningunni er stigið metnaðarfullt skref í greiningarvinnu innan KSÍ, sem mun gagnast félagsliðum og öllum landsliðum, þar á meðal t.d. A landsliði kvenna sem tekur þátt í úrslitakeppni EM á Englandi í sumar.
Á meðal helstu verkefna Grétars Rafns eru þarfagreining og skimun (scouting) innan Knattspyrnusviðs KSÍ, vinna að stefnumótun, fagleg efling á greiningarvinnu innan íslenskrar knattspyrnu almennt (landslið og félagslið) í samvinnu og samráði við starfsmenn Knattspyrnusviðs KSÍ og fulltrúa aðildarfélaganna eins og við á (í formi funda, námskeiða og fyrirlestra), samhæfing á greiningarvinnu og skimun yngri og eldri landsliða í samvinnu og samstarfi við þjálfara liðanna, og ábyrgð á þróun gagnagrunns sem heldur utan um gögn Knattspyrnusviðs KSÍ.
Nafn | Nefnd |
---|---|
Guðni Bergsson | Nefnd UEFA um mót landsliða (National Teams Competitions Committee) |
Aganefnd FIFA (FIFA Disciplinary Committee) | |
Viðar Halldórsson | Nefnd UEFA um mót félagsliða (UEFA Club Competitions Committee) |
Guðrún Inga Sívertsen | Nefnd UEFA um kvennaknattspyrnu (UEFA Women´s Football Committee) |
Lúðvík Georgsson | Leyfisnefnd UEFA (UEFA Club Licensing Committee) |
Borghildur Sigurðardóttir | Nefnd UEFA um markaðsmál og ráðgjöf (UEFA Marketing Advisory Committee) |
Klara Bjartmarz | Nefnd UEFA um háttvísi og samfélagslega ábyrgð (UEFA Fair Play and Social Responsibility Committee) |
Geir Þorsteinsson | Nefnd FIFA um málefni aðildarþjóða (FIFA Associations Committee) |